Magdeburg lagði lærisveina Guðjóns Vals

Gísli Þorgeir Kristjánsson í leik með Magdeburg.
Gísli Þorgeir Kristjánsson í leik með Magdeburg. Ljósmynd/Aleksandar Djorovic

Magdeburg vann öruggan sigur á Gummersbach, 37:28, í Íslendingaslag í þýsku 1. deildinni í handknattleik karla í kvöld.

Gísli Þorgeir Kristjánsson reyndist Magdeburg drjúgur en hann skoraði fjögur mörk og gaf fjórar stoðsendingar. Ómar Ingi Magnússon lék ekki vegna meiðsla.

Hjá Gummersbach, sem Guðjón Valur Sigurðsson þjálfar, lét Teitur Örn Einarsson vel að sér kveða og skoraði þrjú mörk ásamt því að gefa þrjár stoðsendingar. Elliði Snær Viðarsson lék ekki vegna meiðsla.

Magdeburg er í sjötta sæti með 19 stig en Gummersbach er sæti neðar með 16 stig.

Melsungen áfram á toppnum

Gott gengi Íslendingaliðs Melsungen heldur áfram en liðið vann Hamburg örugglega, 35:28, í kvöld.

Elvar Örn Jónsson skoraði tvívegis fyrir Melsungen en Arnar Freyr Arnarsson komst ekki á blað.

Melsungen er í efsta sæti deildarinnar með 24 stig.

Stórleikur Andra dugði ekki til

Stórleikur Andra Más Rúnarssonar fyrir Íslendingalið Leipzig dugði ekki til þegar liðið tapaði með minnsta mun fyrir Wetzlar, 31:30.

Andri Már skoraði sjö mörk fyrir Leipzig og Viggó Kristjánsson bætti við tveimur mörkum og fjórum stoðsendingum en Rúnar Sigtryggsson þjálfar liðið.

Leipzig er í 12. sæti með 12 stig.

Loks mátti Hannover-Burgdorf, þar sem Heiðmar Felixson er aðstoðarþjálfari, sætta sig við 28:24-tap fyrir Kiel.

Hannover-Burgdorf er í öðru sæti með 22 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert