Fram upp í þriðja sætið

Reynir Þór Stefánsson skoraði níu mörk og gaf átta stoðsendingar …
Reynir Þór Stefánsson skoraði níu mörk og gaf átta stoðsendingar fyrir Fram í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Fram hafði betur gegn Gróttu, 38:33, í 14. umferð úrvalsdeildar karla í handknattleik í Úlfarsárdal í kvöld.

Með sigrinum fór Fram upp fyrir Hauka og í þriðja sætið þar sem liðið er með 19 stig, jafnmörg og Afturelding sæti ofar. Grótta er enn í áttunda sæti með tíu stig.

Mikið jafnræði var með liðunum framan af fyrri hálfleik. Undir lok hans sleit Fram sig aðeins frá gestunum af Seltjarnarnesi, komst mest fjórum mörkum yfir í stöðunni 20:16 og var staðan 20:17 í hálfleik.

Grótta hóf síðari hálfleikinn af krafti og jafnaði metin fljótlega í 22:22. Áfram var jafnræði með liðunum þar sem Grótta jafnaði metin í 25:25 og 26:26.

Fram brást við með því að skora næstu þrjú mörk og leit ekki til baka eftir það. Framarar komust nokkrum sinnum fimm mörkum yfir og reyndist það munurinn þegar upp var staðið.

Þorsteinn Gauti Hjálmarsson fór hamförum hjá Fram og skoraði 11 mörk auk þess að gefa þrjár stoðsendingar. Reynir Þór Stefánsson átti sömuleiðis stórleik en hann skoraði níu mörk og gaf átta stoðsendingar.

Breki Hrafn Árnason varði 11 skot í marki Framara.

Jón Ómar Gíslason var markahæstur hjá Gróttu með tíu mörk úr jafnmörgum skotum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert