Dramatískt jafntefli á Akureyri

Ihor Kopyshynskyi skýtur að marki KA.
Ihor Kopyshynskyi skýtur að marki KA. Ljósmynd/Egill Bjarni

KA og Afturelding gerðu dramatískt jafntefli, 28:28, í úrvalsdeild karla í handbolta á Akureyri í dag.

Afturelding situr í öðru sæti með 20 stig en KA er í tíunda sæti með tíu stig.

KA byrjaði viðureignina af krafti og komust þremur mörkum yfir snemma leiks, 3:0. Afturelding var fljót að jafna metin og var mikið jafnræði með liðunum í kjölfarið. Liðin náðu mest tveggja marka forystu og var staðan 15:14 fyrir KA þegar flautað var til hálfleiks.

Afturelding byrjaði síðari hálfleikinn betur og komst yfir 18:17 eftir fimm mínútur. Afturelding náði aftur forystunni, 23:22, þegar rúmar 10 mínútur voru eftir. Allt stefndi í sigur KA-manna þar til Ihor Kopyshynskyi jafnaði metin fyrir Aftureldingu þegar fjórar sekúndur voru eftir.

Bjarni Ófeigur Valdimarsson var markahæstur með 12 mörk fyrir KA. Einar Rafn Eiðsson skoraði átta mörk fyrir KA. Í liði Aftureldingar var Ihor Kopyshynskyi markahæstur með sex mörk.

Einar Baldvin Baldvinsson átti stórleik í marki Aftureldingar en hann varði 17 skot eða með 40,5% markvörslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert