Þórir Hergeirsson varð Evrópumeistari í sjöunda sinn sem þjálfari norska kvennalandsliðsins í handbolta eftir sigur á Danmörku, 31:23, í úrslitaleiknum í Vínarborg í gærkvöldi.
Þetta var síðasta stórmót Þóris með norska liðið en hann hættir nú eftir 15 ár í starfi og ellefu gullverðlaun.
Selfyssingurinn er hins vegar óviss hvað tekur við en hann gaf lítið frá sér í samtali við norska miðilinn Nettavisen í gærkvöldi.
„Ég hef fengið mörg tilboð en hef sagt nei við öllu. Ég ætla ekki að þjálfa fleiri lið á þessu ári. Nú vil ég nýta tímann í að bíða eftir einhverju spennandi,“ sagði Þórir en blaðamaður Nettavisen taldi svar hans dularfullt.
Ætlar þú að þjálfa á næsta ári? Var Þórir síðan spurður.
„Kannski, kannski ekki. Líklegast geri ég eitthvað allt annað, en hver veit,“ svaraði íslenski þjálfarinn.
Ítarlega verður farið yfir feril Þóris með norska landsliðið í Morgunblaðinu á morgun.