Arfleifð Þóris er engri lík

Þórir Hergeirsson á hliðarlínunni á EM.
Þórir Hergeirsson á hliðarlínunni á EM. AFP/Kerstin Joehnsson

Selfyssingurinn Þórir Hergeirsson hefur látið af störfum sem þjálfari norska kvennalandsliðsins í handknattleik. Síðasta verk hans var að skila Evrópumeistaratitlinum í hús í Vínarborg í Austurríki á sunnudag, sjötta slíka titlinum sem liðið vinnur undir stjórn Þóris og ellefta titlinum á kynngimögnuðum 15 og hálfs árs ferli með Noreg.

Þórir starfaði raunar töluvert lengur fyrir norska handknattleikssambandið þar sem hann var aðstoðarþjálfari kvennaliðsins um átta ára skeið frá 2001 til 2009, þegar hann tók við sem þjálfari. Tæplega 24 ára starfi með norska kvennaliðinu er nú formlega lokið og arfleifðin hreint lygileg.

Tuttugu stórmót, 11 titlar, 17 verðlaunapeningar. Geri aðrir betur. Á aðeins þremur af stórmótunum 20 sem Þórir stýrði Noregi á vann liðið ekki til verðlauna. Slakasti árangurinn, ef hægt er að taka svo djúpt í árinni, var fimmta sæti í tvígang. Þórir, sem er sextugur, tilkynnti í september að EM 2024 yrði hans síðasta mót með liðið.

Þá hafði hann nýlega unnið til síns annars ólympíumeistaratitils við stjórnvölinn í París í sumar og síðasta ár Þóris með Noreg er því draumi líkast. En hvernig varð Selfyssingurinn með sveinspróf í húsasmíði einn sigursælasti þjálfari í handknattleikssögunni?

Stóð á krossgötum

Í hátíðarfyrirlestri sem Þórir hélt í tilefni 25 ára afmælis Háskólans í Reykjavík fór hann yfir ferilinn. Kvaðst hann hafa staðið á krossgötum vorið 1986, þá leikmaður Selfoss í handknattleik og með sveinsbréfið í hendinni. Þórir ákvað að halda til Noregs til þess að mennta sig á öðru sviði, í íþróttakennslu við Norska skólann í íþróttafræðum í Ósló.

Eftir það varð ekki aftur snúið. Þórir, rétt skriðinn yfir tvítugt, hóf fljótlega að þjálfa handknattleik meðfram náminu og hafði fundið köllun sína. Í samtali við Fréttablaðið árið 2005 sagðist hann hafa verið þokkalegur leikmaður en betri þjálfari og því ekki að heyra að eftirsjáin eftir leikmannsferlinum hafi verið mjög mikil.

Þórir var ráðinn þjálfari karlaliðs Elverum aðeins 25 ára gamall árið 1989. Ungur þjálfarinn sankaði að sér reynslu og stýrði liðinu í fimm ár. Ári eftir að hann lét af störfum hjá Elverum, árið 1995, tók Þórir við karlaliði Gjerpen og stýrði því í tvö ár. Tveimur árum síðar tók hann svo við þriðja norska karlaliðinu, Nærbö, sem Þórir stýrði frá 1999 til 2001, þegar hann var ráðinn aðstoðarþjálfari norska kvennalandsliðsins.

Umfjöllunina um feril Þóris má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka