Stjarnan er komin í undanúrslit í bikarkeppni karla í handknattleik eftir æsispennandi leik við ÍR í Breiðholtinu sem lauk með 35:34-Stjörnusigri.
Stjarnan verður því eitt af fjórum liðum sem tekur þátt í bikarúrslitahelginni á næsta ári.
ÍR-ingar voru sterkari í fyrri hálfleik og fóru tveimur mörkum yfir til búningsklefa, 20:18.
ÍR var með forystuna mest allan seinni hálfleikinn en á síðustu fimm mínútunum komst Stjarnan yfir og hélt út.
Ísak Logi Einarsson átti mjög góðan leik fyrir Stjörnuna en hann skoraði níu mörk. Hjá ÍR fóru Baldur Fritz Bjarnason og Bernard Kristján Darkoh á kostum og skoruðu ellefu mörk hvor.