Handboltaleik hætt vegna vallarskilyrða

Þorsteinn Leó Gunnarsson er aðalmarkaskorari Porto.
Þorsteinn Leó Gunnarsson er aðalmarkaskorari Porto. mbl.is/Árni Sæberg

Sú sérstaka staða kom upp í leik Avanca og Porto í portúgölsku 1. deildinni í handknattleik karla í gærkvöld að leik var hætt eftir rúmar átta mínútur vegna vallarskilyrða.

Þorsteinn Leó Gunnarsson og samherjar í Porto hófu leikinn vel og staðan var 5:2, þeim í hag, þegar leikmaður Avanca varð fyrir meiðslum.

Hálu gólfi var um að kenna og í kjölfarið var ákveðið að ekki væri hægt að halda áfram vegna slæms ástands þess. Leiknum verður haldið áfram að loknu heimsmeistaramótinu, þann 5. febrúar.

Hin tvö Íslendingaliðin í deildinni spiluðu í gærkvöld. Orri Freyr Þorkelsson skoraði fimm mörk fyrir Sporting sem vann Braga, 38:29, á heimavelli og Stiven Tobar Valencia skoraði eitt mark fyrir Benfica sem vann Nazare á útivelli, 34:26.

Sporting er á toppi deildarinnar með 52 stig úr 18 leikjum en Porto er með 49 stig úr 17 leikjum og Benfica er með 48 stig úr 18 leikjum. Íslendingaliðin þrjú eru í sérflokki í deildinni og ljóst að þau slást um meistaratitilinn í vetur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert