Handknattleiksmaðurinn Þorgils Jón Svölu Baldursson, línumaður Karlskrona í Svíþjóð, er kominn til Íslands þar sem hann freistar þess að fá bót meina sinna. Hefur Þorgils Jón verið frá keppni vegna nárameiðsla síðan í byrjun október.
Handbolti.is greinir frá því að meðferð vegna meiðslanna í Svíþjóð hafi ekki skilað tilætluðum árangri og því hafi verið brugðið á það ráð að leita ráðgjafar hjá sérfræðingum á Íslandi.
Þorgils Jón sagði meiðslin leiðinlega þrálát enda tveir og hálfur mánuður síðan hann spilaði síðast. Karlskrona er í fjórða sæti sænsku úrvalsdeildarinnar með 19 stig líkt og Sävehof og Kristianstad í sætunum fyrir ofan.