Hörður stofnaði kröfu í einkabanka dómara

Úr leik hjá Herði á síðasta ári.
Úr leik hjá Herði á síðasta ári. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Heldur óvenjulegt mál kom inn á borð aganefndar Handknattleikssambands Íslands, HSÍ, þann 10. desember síðastliðinn.

Málið snýr að hegðun forsvarsmanns Harðar eftir leik Harðar 2 gegn Vængjum Júpiters í 2. deild þann 30. nóvember og kröfu sem var stofnuð í einkabanka annars dómara leiksins.

Í úrskurði aganefndar á fundi hennar þann 17. desember segir að Róberti Geir Gíslasyni, framkvæmdastjóra HSÍ, hafi borist upplýsingar um að í kjölfar leiksins hafi umræddur forsvarsmaður ítrekað reynt að setja sig í samband við annan dómara leiksins og ekki látið af þeirri hegðun þrátt fyrir beiðni þar um.

Tilhæfulaus krafa

Þá hafi handknattleiksdeild Harðar í kjölfarið stofnað tilhæfulausa kröfu í einkabanka dómarans að fjárhæð kr. 150.000.

„Aganefnd barst greinargerð frá handknattleiksdeild Harðar vegna málsins. Er þar m.a. bent á að sá aðili sem erindið beinist að sé ekki forráðamaður deildarinnar, heldur styrktaraðili, velunnari og sjálfboðaliði hjá félaginu.

Í greinargerðinni er tekið fram að umræddur aðili hafi ekki komið að stofnun umræddrar kröfu í heimabanka dómarans. Hins vegar staðfestir félagið að krafan hafi verið stofnuð á vegum félagsins og virðist á því byggt að það hafi verið réttlætanlegt þar sem dómarinn olli félaginu skaða,“ sagði meðal annars í úrskurði aganefndar.

Fjárkrafan stafar frá félaginu

Í úrskurðinum segir einnig að aganefnd hafi borist gögn sem sýna fram á þau samskipti sem lýst er í erindi framkvæmdastjóra HSÍ.

„Enn fremur hefur félagið gengist við því að fjárkrafa, sem beint var persónulega að dómara leiksins vegna starfa hans sem dómari, stafi frá félaginu og hafi verið send í einkabanka dómarans af þar til bærum aðila á vegum félagsins.

Hafa engin haldbær rök verið færð fram fyrir þeirri kröfu eða að hún eigi nokkurn rétt á sér. Er það mat aganefndar að um sé að ræða óíþróttamannslega háttsemi á vegum félagsins sem var til þess fallin að skaða ímynd handknattleiksíþróttarinnar,“ sagði einnig í úrskurðinum.

Er það því niðurstaða aganefndar að gera handknattleiksdeild Harðar sekt að fjárhæð kr. 110.000.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert