Íslendingaliðið Kolstad sigraði Elverum, 32:29, í toppslag norsku úrvalsdeildar karla í handbolta í dag.
Elverum heldur toppsætinu þrátt fyrir tapið og er með 31 stig en Kolstad er aðeins stigi á eftir þeim.
Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði fimm mörk fyrir Kolstad og Benedikt Gunnar Óskarsson og Sveinn Jóhannsson skoruðu eitt mark hvor. Arnór Snær Óskarsson gaf tvær stoðsendingar og Benedikt þrjár.
Arendal og Bergen gerðu 34:34-jafntefli eftir spennandi lokamínútur í sömu deild í dag. Arendal komst yfir þegar 18 sekúndur voru eftir en Daniel Dimitrijevic jafnaði metin fyrir Bergen á síðustu sekúndu leiksins.
Dagur Gautason átti frábæran leik fyrir Arendal og skoraði sex mörk fyrir liðið sem er núna í áttunda sæti með 17 stig þegar 17 umferðir eru búnar.