Rænulaus á aðfangadagskvöld

Viggó Kristjánsson gengur til liðs við Erlangen um áramótin.
Viggó Kristjánsson gengur til liðs við Erlangen um áramótin. Ljósmynd/Erlangen

„Það hefði verið gaman að ná síðasta heimaleiknum og kveðja liðsfélaga og stuðningsmenn en ég var bara fárveikur,“ sagði Viggó Kristjánsson, landsliðsmaður í handknattleik sem skiptir frá Leipzig til Erlangen um áramótin.

Bæði lið leika í þýsku 1. deildinni og tókst Viggó ekki að spila það sem átti að vera kveðjuleikur hans hjá Leipzig síðastliðið föstudagskvöld.

„Við spiluðum útileik 23. desember. Ég var búinn að vera slappur fyrir leikinn og eftir hann veikist ég mikið. Ég endaði meira að segja á bráðamóttöku á aðfangadagskvöld þannig að ég missti af jólunum með fjölskyldunni.

Ég er ánægður með að vera orðinn nokkuð hress. Ég er ekki alveg búinn að ná mér en þetta er svona allt að koma. Þó ég hafi misst af leiknum var ég ekkert mikið að spá í handboltann, mig langaði bara að ná heilsu,“ sagði Viggó í samtali við mbl.is.

Dúsaði á sjúkrahúsi yfir nóttina

Spurður nánar út í veikindin sagði hann:

„Ég fékk svaka hita og var með kuldahroll alla nóttina. Ég fór til heimilislæknis daginn eftir, 24. desember, og fékk ávísuðum einhverjum sýklalyfjum og fór síðan heim til mín og hélt að þetta yrði betra á sýklalyfjunum.

En svo virkuðu þau ekki neitt og hitinn hélt bara áfram að hækka. Ég var eiginlega orðinn rænulaus þarna um kvöldið. Þá keyrði konan mín mig upp á bráðamóttöku og ég dúsaði þar yfir nóttina.

Ég var hræddur um að þetta væri slæm lungnabólga eins og ég hafði fengið fyrr á árinu. Mér fannst líklegt að ég hefði fengið hana en læknarnir töldu mig hafa sloppið við það.

Þeir sögðu að þetta væri berkjubólga. En ég er allur að koma til. Ég er ennþá með hósta og kvefaður en maður er allavega kominn með orku þannig að þetta er að hafast.“

Ítarlegt viðtal við Viggó birtist á íþróttasíðum Morgunblaðsins næstkomandi fimmtudag, 2. janúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert