Valur á lið ársins 2024

Hápunktur Vals var Evrópubikarmeistaratitilinn.
Hápunktur Vals var Evrópubikarmeistaratitilinn. mbl.is/Jóhann Ingi

Karlalið Vals í handbolta var kjörið besta lið Íslands árið 2024 á 69. hófi Samtaka íþróttafréttamanna og Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands í Hörpu í kvöld.

Hápunktur síðasta árs hjá Valsliðinu var sigurinn í Evrópubikarnum en liðið vann gríska liðið Olympiacos í vítakeppni í Aþenu eftir jafntefli samanlagt í tveimur leikjum. Varð Valur þar með fyrsta íslenska liðið til að vinna Evrópukeppni á vegum EHF.

Valur varð einnig bikarmeistari eftir sigur á ÍBV, 43:31, í bikarúrslitum í mars. Valsliðið tapaði fyrir Aftureldingu í undanúrslitum Íslandsmótsins í maí.

Íslenska kvennalandsliðið í hópfimleikum hafnaði í öðru sæti í kjörinu, en liðið varð Evrópumeistari í haust. Þá var kvennalandsliðið í fótbolta í þriðja sæti.

Liðið tryggði sér með sannfærandi hætti sæti á lokamóti EM með glæsilegum 3:0-sigri á Þýskalandi á Laugardalsvelli og lék mjög vel á árinu sem var að líða.

Niðurstaða kjörsins

1. Valur handbolti karla 67
2. Ísland hópfimleikar kvenna 53
3. Ísland fótbolti kvenna 41
4. Valur handbolti kvenna 30
5. Víkingur fótbolti karla 14
6. Ísland körfubolti karla 6
7. FH handbolti karla  3
8.-9. Breiðablik fótbolti karla 1
Ísland handbolti kvenna 1

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert