Karlalið Vals í handbolta var kjörið besta lið Íslands árið 2024 á 69. hófi Samtaka íþróttafréttamanna og Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands í Hörpu í kvöld.
Hápunktur síðasta árs hjá Valsliðinu var sigurinn í Evrópubikarnum en liðið vann gríska liðið Olympiacos í vítakeppni í Aþenu eftir jafntefli samanlagt í tveimur leikjum. Varð Valur þar með fyrsta íslenska liðið til að vinna Evrópukeppni á vegum EHF.
Valur varð einnig bikarmeistari eftir sigur á ÍBV, 43:31, í bikarúrslitum í mars. Valsliðið tapaði fyrir Aftureldingu í undanúrslitum Íslandsmótsins í maí.
Íslenska kvennalandsliðið í hópfimleikum hafnaði í öðru sæti í kjörinu, en liðið varð Evrópumeistari í haust. Þá var kvennalandsliðið í fótbolta í þriðja sæti.
Liðið tryggði sér með sannfærandi hætti sæti á lokamóti EM með glæsilegum 3:0-sigri á Þýskalandi á Laugardalsvelli og lék mjög vel á árinu sem var að líða.
Niðurstaða kjörsins:
1. Valur handbolti karla 67
2. Ísland hópfimleikar kvenna 53
3. Ísland fótbolti kvenna 41
4. Valur handbolti kvenna 30
5. Víkingur fótbolti karla 14
6. Ísland körfubolti karla 6
7. FH handbolti karla 3
8.-9. Breiðablik fótbolti karla 1
Ísland handbolti kvenna 1