KA/Þór hefur fengið handknattleikskonuna Tinnu Valgerði Gísladóttur til liðs við sig að láni frá Gróttu. Lánssamningurinn gildir út tímabilið.
Tinna Valgerður er 24 ára gömul örvhent skytta sem einnig hefur leikið með Fram á ferli sínum.
Um góðan liðstyrk er að ræða fyrir KA/Þór, sem er á toppi 1. deildarinnar og stefnir hraðbyri upp í úrvalsdeild að nýju eftir að hafa fallið úr henni á síðasta tímabili.
Hún er kærasta Bjarna Ófeigs Valdimarssonar, leikmanns KA, og samdi við uppeldisfélag sitt Gróttu síðastliðið sumar þegar þau fluttu saman heim frá Þýskalandi, þar sem hann hafði leikið með Minden.