Jesper Jensen, þjálfari kvennaliðs Danmerkur í handknattleik, hættir með liðið að eigin ósk í sumar.
Þetta kemur fram á heimasíðu danska handknattleikssambandsins. Danska sjónvarpsstöðin TV2 greindi frá því í síðustu viku að Jensen myndi að öllum líkindum taka við sem þjálfari kvennaliðs Ferencváros, ungversku meisturunum, í sumar.
Hann hefur þjálfað danska liðið frá árinu 2020 og vann til silfurverðlauna á EM 2024 í síðasta mánuði, þegar Danmörk tapaði fyrir Noregi í síðasta leik Þóris Hergeirssonar við stjórnvölinn hjá þeim norsku.