Valur hafði betur í toppslagnum í úrvalsdeild kvenna í handbolta á Hlíðarenda í dag og sigraði Fram 31:28.
Valur er á toppi deildarinnar með 22 stig og Fram er í öðru sæti með 16 stig.
Fyrri hálfleikur var hnífjafn og það munaði aldrei meira en tveimur mörkum á liðunum sem skiptust á að vera í forystu. Þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður var Valur tveimur mörkum yfir, 9:7, en Framarar gáfu ekkert eftir. Þegar 23 mínútur voru liðnar var staðan 14:12 fyrir Fram eftir nokkrar klaufalegar sóknir hjá heimakonum í röð. Valur tók þá leikhlé og var einu marki yfir í hálfleik, 16:15.
Seinni hálfleikur byrjaði jafnt og staðan var 20:20 eftir tíu mínútur en eftir það sigldu Valsarar fram úr og komust mest fimm mörkum yfir, 30:25, og leikurinn endaði 31:28.
Leikurinn var 40. sigur Vals í röð í öllum keppnum.