„Þetta er auðvitað mjög gaman og það er búið að vera draumur síðan maður var krakki að fara á stórmót. Þetta verður mitt fyrsta og vonandi stendur maður undir væntingunum,“ sagði Þorsteinn Leó Gunnarsson, vinstri skytta íslenska landsliðsins í handknattleik.
Ísland er á leið á HM 2025 þar sem liðið spilar í G-riðli í Zagreb í Króatíu.
„Í fyrsta lagi ætlum við að byrja á að vinna riðilinn og komast upp úr honum. Svo kemur í ljós hvað gerist eftir það,“ sagði Þorsteinn Leó í samtali við mbl.is, spurður út í væntingar liðsins á mótinu.
Veistu hvert hlutverk þitt verður á mótinu?
„Það verður held ég bara að koma í ljós. Ég veit það ekki einu sinni sjálfur hvernig það verður. Ef ég fæ tækifæri mun ég nýta þau en þetta kemur í ljós,“ sagði stórskyttan hávaxna.
Mbl.is náði tali af Þorsteini Leó fyrir æfingu í Víkinni á þriðjudagsmorgun. Þar æfði liðið nokkrum sinnum áður en það hélt út til Svíþjóðar í gær. Ísland mætir Svíþjóð í tveimur vináttulandsleikjum í undirbúningi sínum fyrir heimsmeistaramótið, þeim fyrri í Kristianstad í kvöld.
„Það er búið að ganga mjög vel og maður er búinn að læra mjög mikið á þessum stutta tíma. Liðið er að þjappa sér vel saman. Ég held að við séum bara vel stemmdir í hópnum,“ sagði hann um undirbúninginn.
Þorsteinn Leó gekk til liðs við Porto síðastliðið sumar og er ánægður með fyrstu mánuðina í Portúgal.
„Þeir eru búnir að standast væntingar myndi ég segja. Ég er búinn að vera mjög ánægður hingað til. Þetta er búið að vera mjög gaman og lærdómsríkt.
Deildin er auðvitað mjög slök þarna úti nema þessi þrjú lið. Oft í þessum leikjum sem maður spilar veistu að þú ert að fara að vinna með 10-20 mörkum.
En svo færðu þessa spennandi leiki á móti Sporting og Benfica, sem eru mjög skemmtilegir. Svo erum við í Evrópudeildinni og komumst upp úr riðlinum þar þannig að þetta er bara búið að vera mikið ævintýri,“ sagði hann að endingu.