„Ég er ævinlega bjartsýnn“

Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Vals.
Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Vals. mbl.is/Eyþór

„Við erum svo sem lítið að pæla í því sjálf að við séum búin að vinna 40 leiki í röð og eitthvað slíkt,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari kvennaliðs Vals í handknattleik, um ótrúlega sigurgöngu liðsins.

Valur á fyrir höndum afskaplega snúið verkefni gegn Málaga Costa del Sol í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Evrópubikarsins ytra í dag. Málaga er í efsta sæti spænsku 1. deildarinnar og því hægt að ímynda sér að 40-leikja sigurganga Vals sé í hættu.

„Þetta hefur nú ekki verið rætt innan okkar raða. En jú, jú, þetta er alveg í hættu. Við erum að fara í leik á móti mjög reyndu liði sem er með mikil gæði.

En að sama skapi erum við með feykilega öflugt lið, bæði ungar og mjög efnilegar stelpur í bland við reynda og góða leikmenn. Við gefum þeim hörkuleik.

Það er svolítið erfitt að átta sig á hvernig leikurinn kemur til með að þróast en vonandi náum við að stjórna hraðanum í leiknum og ná góðri frammistöðu.

Þá vonandi náum við að vera með þokkalega hagstæð úrslit fyrir heimaleikinn þannig að við getum reynt að búa til alvöru leik þar,“ sagði Ágúst í samtali við mbl.is.

Ævinlega bjartsýnn

Síðari leikurinn fer fram á Hlíðarenda eftir viku og kvaðst hann bjartsýnn á að Val auðnist að ná í góð úrslit í dag. Leikurinn hefst klukkan 17.

„Já, ég er ævinlega bjartsýnn. Stelpurnar hjá okkur eru í góðu formi og hafa spilað feykilega vel. Ég hef enga ástæðu til þess að ætla annað en að við stöndum okkur vel á morgun [í dag] og við gætum alveg náð í góð úrslit.

En ég er alveg meðvitaður um það að andstæðingurinn er mjög öflugur. Það er markmiðið hjá okkur og við förum bara full sjálfstrausts inn í leikinn á morgun [í dag] og ætlum okkur að ná að stríða þessu liði og gera góða hluti,“ sagði Ágúst að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert