Þórir Hergeirsson segir að það komi ekki til greina að þjálfa danska kvennalandsliðið í handbolta.
Eftir 15 ár sem landsliðsþjálfari Norðmanna hætti Þórir með landsliðið eftir að hann gerði liðið að Evrópumeisturum.
Jesper Jensen ætlar að hætta með danska landsliðið í handbolta og eru Danir því að leita sér að nýjum þjálfara.
„Það kemur ekki til greina hjá mér og það breytist ekkert þó þeir myndu bjóða mér starfið,“ sagði Þórir í viðtali við Dagbladet, aðspurður um hvort hann hefði áhuga á því að taka við danska landsliðinu.
Þórir náði stórkostlegum árangri með norska landsliðinu en hann gerði liðið tvígang að Ólympíumeisturum, þrígang að heimsmeisturum og sex sinnum að Evrópumeisturum.
„Það verður ekkert félag né landslið á næstunni. Ég vil komast út úr þessu og gera eitthvað annað í smá tíma. Eftir það mun ég sjá hvort ég vilji snúa aftur,“ sagði Þórir.