Væri til í að sleppa við Val

Haukar spila í átta liða úrslitum Evrópubikarsins.
Haukar spila í átta liða úrslitum Evrópubikarsins. mbl.is/Ólafur Árdal

„Þetta er geggjuð tilfinning en við erum að lenda í smá meiðslum í restina sem er ekki gott fyrir okkur, það er stutt í næsta leik,“ sagði Díana Guðjónsdóttir þjálfari Hauka eftir 24:22-sigur liðsins gegn úkraínska liðinu Galychanka Lviv í 16-liða úrslitum Evrópubikars kvenna í handbolta.

Haukar komust níu mörkum yfir í seinni hálfleik og hvíldu lykilleikmenn en Galychanka Liviv minnkaði þá muninn í aðeins tvö mörk. Elín Klara Þorkelsdóttir kom þá aftur inn á en lenti illa undir lok leiks og var borin af velli.

„Við spiluðum allt í lagi að hluta til sóknarlega eftir að við skiptum en við erum ekki klárar varnarlega, það er áhyggjuefni. Leikmenn sem koma inn á verða að halda áfram sama plani og var búið að leggja upp.

Það var óöryggi í sókn. Til að byrja með vorum við að fá færi en að klúðra þeim, svo allt í einu fór allt í baklás. Leikmenn vilja mínútur og verða þá að nýta mínúturnar þegar þær koma. Ég hefði viljað sjá leikmenn sem komu inn á gera það aðeins betur.“

 Haukar mæta toppliði Vals á miðvikudaginn í deildinni.

„Þetta er fegurðin við janúar, það eru fullt af leikjum og alls konar. Auðvitað koma þessir Evrópuleikir inn í viðbót og öðruvísi andstæðingar og stelpur sem er frábært.“

Haukar eru fyrsta liðið til að komast í átta liða úrslit og dregið verður í næstu viku. Valur verður mögulega í pottinum með þeim en til þess þarf liðið að sigra spænska liðið Málaga Costa del Sol.

Eruð þið með draumamótherja í átta liða úrslitum? 

„Á ég ekki frekar að segja ekki draumamótherjann? Ég væri til í að sleppa við Val, fá eitthvað öðruvísi, ekki það að það er alltaf skemmtilegt að spila á móti Val en bara gaman að spila á móti öðrum liðum og öðruvísi mótherjum.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert