Haukar áttu skilið að vinna

Ágúst Þór Jóhannsson ræðir við leikmenn sína í kvöld.
Ágúst Þór Jóhannsson ræðir við leikmenn sína í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari kvennaliðs Vals var svekktur með fyrsta tapleikinn í deildinni í vetur þegar Valur tapaði fyrir Haukum á Ásvöllum. Spurður út í leikinn sagði Ágúst þetta:

„Mér fannst við vera slakar á báðum vallarhelmingum í kvöld. Varnarleikurinn var ekki sannfærandi og við fáum engin hraðaupphlaup, sérstaklega í fyrri hálfleik. Sama í seinni hálfleik þá reynum við að brjóta þetta upp og förum í 3-2-1 til að reyna komast í meiri snertingu við Haukana. Við erum mikið útaf í 2 mínútur í kjölfarið fyrir að mínu mati litlar sakir.“

3-2-1 vörn Vals var samt að virka vel því Haukar voru sýnilega í miklum vandræðum með að brjótast í gegnum það varnarafbrigði Valskvenna. Hvers vegna breyttir þú aftur í 6-0 vörn þegar hlutirnir voru að virka vel í fyrrnefnda kerfinu?

„Ég þurfti að taka Theu útaf og ég var bara ekki með réttan mannskap til að halda áfam í 3-2-1. Ég var kominn með ungan rétthentan leikmann fyrir utan og Thea var tæp fyrir leikinn. Ég vissi að ég væri að gambla aðeins með því að breyta aftur í 6-0 af því að 3-2-1 vörnin var góð eins og þú segir. En Thea var bara tæp og við vorum í brasi þar.“

Þú tekur leikhlé þegar Haukar eru þremur mörkum yfir í fyrri hálfleik. Í kjölfarið fer allt í gang hjá Valskonum og þið jafnið leikinn og farið með jafnan hlut inn í hálfleikinn. Hvað gerist þá?

„Jú, jú við vorum með ágætis tök á þessu eftir það og vorum í jafnri stöðu eftir fyrri hálfleik og það var ekkert ósanngjarnt. Mér fannst Haukarnir samt alltaf sterkari og líklegri. Síðan í stöðunni 20:18 og ennþá 15 mínútur eftir þá fannst mér við vera í ágætis séns ennþá á að taka þetta en við hefðum þurft að skipta um gír og komast einu skala ofar.

Því miður voru bara of margir leikmenn ekki á sínum besta degi og um leið voru Haukarnir góðir, sannfærandi og áttu bara skilið að vinna. Auðvitað erum við svekkt og ætluðum að vinna en stelpurnar eru bara mannlegar og hafa spilað mjög vel allt þetta tímabil. Auðvitað vissum við að við gætum tapað leikjum og það kemur ekkert á óvart að það gerist hérna á Ásvöllum.“

Í lok leiksins mölbrotnar Valsliðið. Haukar ná 7 marka forskoti og svolítið keyra yfir ykkur. Hvað gerist þá?

„Við fórum í 7 á 6 og erum að reyna saxa á þetta. Við erum komin í eitthvað sem við erum ekkert búin að æfa. Það leit út fyrir að það væri ekki mikið eftir á tanknum þrátt fyrir að við hefðum hreyft liðið mikið og vorum með margar ungar stelpur að spila mikið í kvöld.

En við virkuðum bara þreytt eftir erfiða törn en það er engin afsökun. Við vorum öll frekar ólík sjálfum okkur. Nú þurfum við að undirbúa okkur fyrir seinni leikinn gegn Málaga,“ sagði Ágúst í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert