Valur er með besta liðið

Elín Klara Þorkelsdóttir og Hildigunnur Einarsdóttir í leiknum í kvöld.
Elín Klara Þorkelsdóttir og Hildigunnur Einarsdóttir í leiknum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Díana Guðjónsdóttir þjálfari kvennaliðs Hauka var að vonum ánægð með sigurinn á toppliði Vals í úrvalsdeild kvenna í handbolta í kvöld. Haukakonur bundu enda á 11 leikja sigurgöngu Vals í vetur sem fyrir leikinn var með fullt hús stiga.

Spurð út í hvað skóp sigurinn sagði Díana þetta:

„Þetta var frábær liðsheild sem skapar þennan sigur og við höldum áfram að spila frábæra vörn eins og við gerðum um síðustu helgi. Það gefur okkur síðan þessa frábæru markvörslu og ég er ótrúlega stolt af stelpunum og liðinu. Þetta er búinir að vera frábærir 15 dagar í janúar.“

Markvarslan var frábær í kvöld. Hverju geta Haukar þakkað það svona fyrir utan markvörðunum sjálfum?

„Við erum með þrjá góða markverði og Sara Sif meiðist illa fyrir áramót og við erum bara búin að vera gefa henni tíma. Við vorum að vonast til að fá hana inn fyrr en hinar hafa staðið sig frábærlega og þær allar þrjár mjög flottar saman og vonandi heldur það bara áfram.“

Ef við tölum aðeins um sóknarleik Hauka. Þetta leit vel út framan af en síðan í lok fyrri hálfleiks fer sóknarleikurinn að ströggla. Það sama gerist í seinni hálfleik áður en haukaliðið keyrir síðan yfir Val. Kanntu skýringar á þessu?

„Já mér finnst á ákveðnum tímapunktum að við séum sjálfum okkur verstar og við þurfum að skoða það. Við erum með Rut í okkar liði og breyttum aðeins conseptinu á sóknarleiknum þegar leið á þar sem hún er komin í frábært stand. Hún hjálpar Elínu Klöru og hinum með sinni reynslu og skipulagi.“

Elín Klara er með 10 mörk og Rut 6 mörk. Það má samt segja að Rut hafi svolíitð dregið vagninn í sókninni framan af á meðan Elín Klara kemur síðan og bindur endahnútinn á leikinn með fullt af mörkum í lokin. Ertu sammála þessu?

„Já algjörlega enda reynslumikill leikmaður og ég hef alltaf sagt að hún sé ein af okkar bestu handboltakonum. Hún dregur mikið til sín sem hjálpar síðan öðrum leikmönnum eins og Elínu Klöru. Að sama skapi þegar það er tvöfaldað á Elinu Klöru þá hjálpar það Rut þannig að þær eru báðar í sérflokki.“

Það hlýtur að vera mikil vítamínsprauta fyrir Hauka að vinna Val sem voru taplausar í rúmt ár í deild fram að þessu ekki satt?

„Jú klárlega. Þær töpuðu síðast hérna í október 2023 á móti okkur hér. Valsliðið er frábært en það er mikið álag á báðum þessum liðum núna í evrópukeppninni en við mættum bara brjálaðar til leiks og vorum frábærar á báðum helmingum vallarins.“

Valur er áfram með 22 stig og Haukar núna 18 stig. Framkonur geta farið upp að hlið Hauka með 18 stig líka. Hvernig sérðu framhaldið fyrir þér í toppbaráttunni?

„Þetta verður bara áfram toppbarátta en auðvitað er það þannig að Valur er með besta líðið þó við höfum unnið í kvöld. Ég held að þær haldi toppsætinu sínu og klári það. En okkar markmið er að þróa okkar leik, verða betri og reyna nálgast Val.“

Næsti leikur er gegn ÍR. Eru engar pásur?

„Þetta er búinir að vera erfiðir 15 dagar. Við æfðum á nýársdag og vorum fókuseruð á þessa 15 daga og lofuðum helgarfríi eftir þennan leik og þá fara leikmenn í endurheimt og svo er það bara ÍR, ÍBV og svo aftur ÍR í bikarnum.“

Elín Klara varð fyrir fólskulegu broti í Evrópuleiknum um helgina. Var hún tæp fyrir leikinn?

„Já hún æfði ekkert fyrir þennan leik í kvöld. Við urðum bara að hafa það þannig. Þetta var ljótt brot og er með verk í mjöðminni en ég á ekki von á öðru en að hún verði bara tilbúin í næsta leik,“ sagði Díana í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert