„Við þurfum að eiga annan eins leik og við áttum gegn þeim í fyrri leiknum ef við ætlum okkur að leggja þær að velli,“ sagði Ágúst Jóhannsson, þjálfari kvennaliðs Vals í handknattleik, í samtali við mbl.is.
Valur tekur á móti Spánarmeisturum Málaga Costa del Sol í síðari leik liðanna í 16-liða úrslitum Evrópubikarsins á Hlíðarenda á morgun en leikurinn hefst klukkan 16:30. Fyrri leik liðanna lauk með jafntefli, 25:25, á Spáni þar sem Thea Imani Sturludóttir jafnaði metin fyrir Valskonur í lokasókn leiksins.
„Fyrirfram þá var þetta það lið sem við vorum að vonast til að sleppa við. Þær unnu keppnina árið 2021 og lentu í öðru sæti árið 2022. Tilfinningin er sú að við höfum komið þeim á óvart í fyrri leiknum þar sem við vorum mjög sterkar, bæði varnar- og sóknarlega. Við erum með gott lið og vonandi hittum við á góðan dag gegn þeim á morgun og náum að klára einvígið,“ sagði Ágúst.
Valskonur töpuðu sínum fyrsta leik í rúmlega 500 daga í vikunni þegar liðið heimsótti Hauka í 12. umferð úrvalsdeildarinnar en leiknum lauk með fimm marka sigri Hauka, 28:23.
„Þetta tap gegn Haukum hjálpar okkur vonandi og gefur okkur smá blóð á tennurnar. Við vissum það öll að það myndi koma að tapleiknum og við töpuðum fyrir mjög góðu Haukaliði. Það er mjög stórt verkefni framundan og kannski voru leikmenn liðsins með Evrópuverkefnið í undirmeðvitundinni.
Ég er sannfærður um það að ef við fáum fullt af fólki á Hlíðarenda að þá getum við strítt spænska liðinu. Það skiptir miklu máli að fólk mæti. Við þurfum 700-900 manns á völlinn og stelpurnar eiga stuðninginn skilið. Það er óskandi að fólk fjölmenni á Hlíðarenda.“
Ágúst lætur af störfum með liðið að yfirstandandi tímabili loknu og mun þá taka við karlaliði Vals en er það draumur hjá honum að ljúka þessu með sigri í Evrópubikarnum?
„Ég fór með liðið í undanúrslit keppninnar árið 2006 og við töpuðum þá fyrir rúmensku liði á einu marki. Ég er gríðarlega hungraður að vinna þennan leik á morgun og koma liðinu einu skrefi lengra. Ég er með mikinn sigurvilja, í öllum keppnum, og mig langar ekkert meira en í 8-liða úrslitin. Við þurfum samt að vera með báða fæturna á jörðinni og passa okkur á því að fara ekki fram úr okkur,“ bætti Ágúst Jóhannsson við í samtali við mbl.is.