Björgvin Páll Gústavsson er reynslumesti leikmaður íslenska landsliðsins í handbolta en hann fagnar fertugsafmæli sínu síðar á árinu. Björgvin er orðinn varamarkvörður Viktors Gísla Hallgrímssonar í landsliðinu en reynsluboltinn er enn þá staðráðinn í að hjálpa landsliðinu að ná árangri.
„Það er gredda í mér líka að fá að spila. Þú mátt aldrei sætta þig of mikið við að vera á bekknum. Það er lítið gegn í þér ef þú vilt ekki spila. Ég vil spila helling og ég hef vanist því í gegnum árin að vera fyrsti markvörður.
Svo kemur Viktor Gísli sem er frábær markvörður og frábær týpa. Hann er virkilega góður og mögulega betri en ég í marki. Ég get samt aðstoðað liðið helling, hvort sem það er á fyrstu mínútu eða lokamínútunni.
Ég sætti mig við það að vera á bekknum og hvetja hann en ég er enn með mín markmið með sjálfum mér,“ sagði Björgvin við mbl.is.