Óli Stef ekki sáttur við Guðmund

Ólafur Stefánsson.
Ólafur Stefánsson. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Ólafur Stefánsson, fyrrverandi landsliðsmaður í handbolta, er ósáttur út í fyrrum þjálfara sinn hjá landsliðinu, Guðmund Guðmundsson, sem þjálfar son hans.

Guðmundur er þjálfari Fredericia þar sem Einar Þorsteinn Ólafsson spilar en Ólafur fór ekki fögrum orðum um Guðmund í samtali við Arnar Daða Arnarsson í hlaðvarpinu Handkastið.

„Varðandi ákvörðunina að fara til Gumma, úff, ég veit ekki, með sóknarleikinn og eitthvað svona. Mér fannst þetta líta ágætlega út en síðan bara gerðist eitthvað. Þetta haust hefur verið mikil áskorun fyrir hann, að lifa það af andlega og líkamlega. Það er búið að draga rosalega úr honum. Ég ætla ekki að segja meira um það en það er búið að vera ógeðslega erfitt,“ sagði Ólafur í hlaðvarpinu.

Einar gekk til liðs við Fredericia frá Val árið 2022.

„Þegar hann var í Val, með sjálfstraust, í sinni gleði, með kokhreysti þá var hann með ótrúlega góða yfirsýn. Ef hann getur farið að lyfta sér upp og svona þá munu himnarnir opnast og ég held að hann viti þetta.“ 

Aldrei fengið kennslu, þroska eða pepp

„Það sem hefur gerst í Fredericia er að Gummi sér þetta ekki og er með allt aðra hraðaupphlaupa hugmyndafræði, eða bara ekkert þannig. Einar hefur fjarað út þar og kemur eitthvað inn í vörn en svo hefur hann aldrei fengið kennslu, þroska eða pepp í því að þroska þetta sem við sáum í Val.

Hann er í erfiðum fasa akkúrat núna og áskorunin hjá honum núna er að hitta á góðan klúbb með góðan þjálfara,“ bætti Ólafur við.

Einar er hluti af átján manna hópi Íslands á heimsmeistaramótinu í handbolta. Ísland mætir Kúbu í kvöld klukkan 19.30 en leikurinn verður í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

 

Guðmundur Þ. Guðmundsson þjálfar danska liðið Fredericia.
Guðmundur Þ. Guðmundsson þjálfar danska liðið Fredericia. Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka