„Þetta er gríðarlega góð tilfinning og ég er mjög stoltur af mínu liði sem ég er svo sem alltaf. Við vissum að við þyrftum að nálgast þennan leik faglega og spila mjög fallega, sem við gerðum.“ - sagði stoltur Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari kvennaliðs Vals, sem komst í kvöld í 8 liða úrslit Evrópubikarsins eftir sigur á atvinnumannaliði Málaga frá Spáni.
Spurður að því hvað hafi lagt grunninn að sigri Vals í dag sagði Ágúst þetta.
„Varnarleikurinn í dag var mjög sterkur. Elísa, Hildigunnur og svo Hildur voru frábærar í hjarta varnarinnar. Vörnin er grunnurinn að þessu. Við náðum að keyra vel á þær á alvöru tempói og í raun og veru hefðum við mátt vera meira yfir í hálfleik því við fórum illa með nokkur færi.
Við byrjum síðan seinni hálfleik af krafti og erum með sannfærandi stöðu og þá þurfti bara að halda haus. Stelpurnar gerðu þetta mjög faglega.“
Áttir þú von á því að ná 7 marka forskoti í seinni hálfleik í dag á móti þessu liði og á endanum vinna með fimm mörkum?
„Nei, ég átti nú ekki von á því fyrir fram að gera jafntefli við þær á útivelli og vinna sannfærandi hér heima. En það sýnir bara að kvennaboltinn er á uppleið hér heima. Við erum með tvö lið, Val og Hauka í 8 liða úrslitum í Evrópukeppni. Mér finnst þetta gríðarlega jákvætt fyrir okkur í Val og líka fyrir Haukana og kvennaboltann í heild sinni.“
Þegar 12 mínútur eru liðnar af seinni hálfleik þá missir þú Hildigunni út af með þriðju brottvísun og rautt spjald. Hafðir þú áhyggjur af varnarleiknum eftir þetta?
„Nei, Hildur kom inn á og leysti þetta. Ég hefði átt að vera búinn að setja hana fyrr inn á. Hún er fyrirliði liðsins og ég hafði engar áhyggjur af því að hún myndi ekki leysa þetta hlutverk.“
Í upphafi spilaði Málaga mjög aggressíva framliggjandi vörn og stundum var eins og Valskonur væru hikandi í árásum á þetta varnarafbrigði. Hvernig leystir þú þetta?
„Mér fannst við ekki vera í neinum vandræðum með sóknarleikinn. Við opnuðum þær hvað eftir annað. Við fórum illa með nokkur færi í fyrri hálfleik en við vorum aldrei í neinum vandræðum sóknarlega. Það er stundum svona að þegar varist hátt uppi á vellinum og það koma mistök hjá sóknarliðinu þá lítur það stundum aðeins verr út heldur en þegar lið spila 6-0 vörn en heilt yfir var sóknarleikurinn okkar frábær í þessum leik.“
Málaga gerir alvöru áhlaup í lokin og upp kom sú staða þar sem gestirnir gátu minnkað muninn í þrjú mörk og þá voru rúmlega tvær mínútur eftir af leiknum sem hefðu getað gert þetta að alvöru lokamínútum. Hafðir þú áhyggjur þá?
„Já, ég var skítstressaður allan tímann. Ég spurði einmitt Hlyn Morthens markmannsþjálfara hvort þetta væri ekki örugglega komið og ég fæ oftast jákvæð svör en ég fékk engin svör þannig að það var ekki til að róa mig. Við náðum samt að halda haus og bæta í. Stelpurnar gerðu þetta bara mjög fagmannlega og eru sannfærandi komnar í 8 liða úrslit,“ sagði Ágúst Þór í samtali við mbl.is.