Valskonur í átta liða úrslit Evrópubikarsins

Elísa Elíasdóttir skorar úr hraðaupphlaupi fyrir Val í leiknum í …
Elísa Elíasdóttir skorar úr hraðaupphlaupi fyrir Val í leiknum í dag. mbl.is/Hákon

Valskonur eru komnar í átta liða úrslit Evrópubikarsins í handbolta eftir frækinn 5 marka sigur á Málaga frá Spáni 31:26 á Hlíðarenda í dag. Var þetta seinni leikur liðanna.

Fyrri leikurinn endaði með jafntefli og nægði því hvoru liðinu eins marks sigur í dag.

Það var mikið um mistök hjá báðum liðum í upphafi leiks. Gestirnir frá Spáni leiddu fyrstu mínúturnar en aldrei með meira en einu marki.

Valskonur jöfnuðu leikinn í stöðunni 3:3 og komust síðan yfir í leiknum. Eftir það voru Valskonur alltaf skrefi á undan í hálfleiknum og náðu mest 4 marka forskoti í stöðunum 10:6 og 12:8 fyrir Val.

Hafdís Renötudóttir átti frábæran fyrri hálfleik og varði 10 skot, þar af eitt vítaskot, og má segja að hún hafi lagt grunninn að forskoti Valskvenna í fyrri hálfleik.

Þegar tæplega 16 mínútur voru liðnar af fyrri hálfleik jöfnuðu Málaga í stöðunni 5:5. Var þar að verki Marta Regordán Silva. Þegar hún stökk inn í teig Valskvenna til að skora lenti hún á Hafdísi markverði og meiddist á höfði. Þegar hún ætlaði að hlaupa til baka í vörn þá kom í ljós að hún var líklega með heilahristing og lagðist í gólfið. Þurfti því að bera Mörtu af velli og tók hún ekki meiri þátt í leiknum.

Í stöðunni 12:8 fyrir Val fóru gestirnir að vinna sig inn í leikinn aftur og náðu að minnka muninn niður í 12:10 áður en Valskonur bættu við marki fyrir hálfleik.

Staðan í hálfleik var 13:10 fyrir Valskonur sem voru 30 mínútum frá því að komast í 8 liða úrslit Evrópubikarsins.

Elín Rósa Magnúsdóttir og Elísa Elíasdóttir skoruðu þrjú mörk hvor fyrir Val í fyrri hálfleik. Gabriela Clausson Bitolo skoraði 3 mörk fyrir Málaga í fyrri hálfleik og Mercedes Castellanos varði 7 skot fyrir Málaga í fyrri hálfleik og Sonara Lucia Solano varði eitt víti. 

Valskonur byrjuðu seinni hálfleikinn mjög vel, komust 5 mörkum yfir í stöðunni 15:10 og þjálfari Málaga neyddist til að taka leikhlé. Eitthvað hefur leikhlé gestanna virkað því næstu tvö mörk komu frá þeim og staðan orðin 15:12 áður en Þórey Anna Ásgeirsdóttir stökk inn úr hægra horninu og kom Valskonum í 16:12.

Hafdís Renötudóttir hélt áfram að verja vel í marki Valskvenna sem héldu áfram að halda í 4-5 marka mun og þegar 11 mínútur voru liðnar af seinni hálfleik var staðan 20:14 fyrir Val, 6 marka munur.

Hildigunnur Einarsdóttir fékk sína þriðju brottvísun þegar tæplega 12 mínútur voru liðnar af seinni hálfleik og það þýddi útilokun frá leiknum.

Það breytti engu því Valskonur héldu áfram að byggja upp gott forskot og náðu 7 marka forskoti í stöðunni 28:21 og 8 mínútur eftir af leiknum. Valskonur voru þarna komnar með annan fótinn í 8 liða úrslitin. 

Leikmenn Málaga gerðu alvöru áhlaup á Valskonur í kjölfarið. Liðið fór í maður á mann og minnkaði muninn niður í 4 mörk í stöðunni 29:25. Málaga vann síðan boltann og gat minnkað muninn niður í 3 mörk þegar rúmlega tvær mínútur voru eftir en skot gestanna fór í stöng. Þrátt fyrir að Valskonur hafi klikkað í næstu sókn þá var tíminn of naumur fyrir gestina til að jafna. Þvert á móti bættu Valskonur við og unnu að lokum 5 marka sigur.

Fór svo að leikurinn endaði með sigri Valskvenna 31:26.

Þórey Anna Ásgeirsdóttir skoraði 7 mörk, þar af eitt úr víti fyrir Val. Maður leiksins í dag er Hafdís Renötudóttir sem varði 17 skot, þar af eitt vítaskot.

Joana Dos Santos skoraði 9 mörk fyrir Málaga, þar af eitt úr víti. Mercedes Castellanos varði 12 skot fyrir gestina.

 

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Aðrir virkir leikir

Brentford 0:2 Liverpool opna
90. mín. Darwin Núnez (Liverpool) skorar 0:1 - Alexander-arnold sendir boltann á Núnez sem sem setti boltann fast í fjær.
Arsenal 2:2 Aston Villa opna
90. mín. Raheem Sterling (Arsenal) fær gult spjald +4 Stöðvaði skyndisókn.
Ísland 40:19 Kúba opna
60. mín. Osmani Miniet (Kúba) skoraði mark

Leiklýsing

Valur 31:26 Málaga opna loka
60. mín. Elísa Elíasdóttir (Valur) skoraði mark
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka