42 ára kom inn á og breytti öllu

Perla Ruth Albertsdóttir er í lykilhlutverki hjá Selfyssingum.
Perla Ruth Albertsdóttir er í lykilhlutverki hjá Selfyssingum. mbl.is/Hákon

Suðurlandsslagur Selfoss og ÍBV í úrvalsdeild kvenna í handknattleik í dag bauð upp á allt sem góður nágrannaslagur getur boðið uppá.

Hraða, spennu, mistök, umdeilda dóma og hörkubaráttu innan vallar sem utan. Eftir dramatískar lokamínútur hafði Selfoss sigur, 24:22.

Fyrri hálfleikurinn var eign Eyjakvenna sem þurftu reyndar nokkurra mínútuna aðlögun til þess að ná jafnvægi á parketinu á Selfossi. Þegar loksins kviknaði á þeim voru þær í hörkugír bæði í vörn og sókn. Selfyssingar réðu ekkert við Britney Cots sem skoraði fyrstu fjögur mörk liðsins og hún var sömuleiðis aðsópsmikil í vörninni þar sem hún hélt stórskyttunni Kötlu Maríu Magnúsdóttir niðri.

Selfyssingar voru ólíkar sjálfum sér framan af, bæði í vörn og sókn í gær. Þær flýttu sér um of í sókninni og réðu illa við 5-1 vörn ÍBV á meðan varnarleikur Selfyssinga var alltof mjúkur. Það bjargaði þeim að Ágústa Tanja Jóhannsdóttir var vakandi í markinu og hún var besti maður vallarins heilt yfir.

Óvænt innkoma Jónu Margrétar

Staðan í hálfleik var 12:7 fyrir ÍBV en það varð algjör viðsnúningur í seinni hálfleiknum. Það var ekki síst fyrir tilstilli Jónu Margrétar Ragnarsdóttur, aðstoðarþjálfara Selfoss, sem kom inná í sínum fyrsta leik á Íslandsmóti í ellefu ár. Það er ekki á færi allra 42 ára leikmanna að breyta leiknum en hún gerði það svo sannarlega í dag, skoraði 3 mörk og átti 5 stoðsendingar.

Jóna Margrét Ragnarsdóttir í leik með Stjörnunni fyrir rúmum áratug. …
Jóna Margrét Ragnarsdóttir í leik með Stjörnunni fyrir rúmum áratug. Hún kom óvænt við sögu með Selfyssingum í dag. mbl.is/Golli

Þessi innkoma Jónu Möggu lyfti öllu Selfossliðinu og vínrauðir stuðningsmenn gjörsamlega trylltust í seinni hálfleiknum. Það kviknaði á Perlu Ruth Albertsdóttur, sem var frábær í seinni hálfleiknum, og Ágústa hélt áfram að verja og átti margar frábærar vörslur.

Það var allt á suðupunkti þegar Selfoss tók leikhlé í stöðunni 22:22 með tæpar tvær mínútur á klukkunni. Selfoss hélt fullri einbeitingu til loka, skoraði tvö síðustu mörkin og tryggði sér sætan sigur í þessum fjögurra stiga leik.

Perla Ruth var markahæst Selfyssinga í dag með 8/3 mörk og fyrrum Eyjakonan Sara Dröfn Ríkharðsdóttir skoraði 4. Ágústa varði 18 skot í markinu. Hjá ÍBV var Sunna Jónsdóttir markahæst með 6 mörk og Britney Cots skoraði 5, þar af 4 á fyrstu tíu mínútunum. Bernódía Sif Sigurðardóttir varði 8 skot og var frábær í fyrri hálfleiknum en markverðir ÍBV fundu sig ekki í seinni hálfleik.

Selfoss er í 4. sæti deildarinnar með 11 stig en ÍBV í 7. sæti með 6 stig.

Fylgst var með gangi mála í beinni texta­lýs­ingu hér á mbl.is sem má sjá hér fyrir neðan.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Aðrir virkir leikir

Man. United 1:3 Brighton opna
90. mín. Harry Maguire (Man. United) fær gult spjald +5 - Fyrir mótmæli.

Leiklýsing

Selfoss 24:22 ÍBV opna loka
60. mín. Sunna Jónsdóttir (ÍBV) skýtur framhjá 59 sekúndur eftir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert