Stjarnan kom sér af mesta hættusvæðinu í úrvalsdeild kvenna í handknattleik með því að sigra Gróttu í Garðabæ, 31:28, í tólftu umferð deildarinnar.
Stjarnan er þá komin með 10 stig og er í fjórða sæti eins og er en Selfoss, sem er með 9 stig, spilar við ÍBV þessa stundina. Grótta situr áfram á botninum með 4 stig.
Jafnræði var með liðunum lengst af í fyrri hálfleik, Stjarnan oftast einu til tveimur mörkum yfir, en jók forskotið í fjögur mörk í lok hálfleiksins, 19:15.
Munurinn var síðan þrjú til fimm mörk langt fram eftir síðari hálfleik. Grótta minnkaði muninn í 30:28 þegar rúmar tvær mínútur voru eftir en komst ekki nær og Anna Karen Hansdóttir innsiglaði sigur Stjörnunnar með síðasta marki leiksins.
Tinna Sigurrós Traustadóttir skoraði 9 mörk fyrir Stjörnuna, Eva Björk Davíðsdóttir 8 og Embla Steindórsdóttir 5. Aki Ueshima varði 13 skot í marki Garðabæjarliðsins.
Ída Margrét Stefánsdóttir var allt í öllu hjá Gróttu og skoraði 12 mörk og Karlotta Óskarsdóttir skoraði 5.