Díana Dögg Magnúsdóttir, landsliðskona í handknattleik, ristarbrotnaði í síðasta leik sínum með félagsliði sínu Blomberg-Lippe og verður af þeim sökum frá keppni næstu vikur.
Díana Dögg skýrði frá því í samtali við Handbolta.is að hún hafi brotnað undir lok fyrri hálfleiks í 34:32-sigri á Mosonmagyarovari í Evrópudeildinni í Ungverjalandi um helgina en hafi ákveðið að halda leik áfram í síðari hálfleik til þess að leggja lóð sín á vogarskálarnar.
Það gerði Díana Dögg svo um munaði en hún gaf tólf stoðsendingar og skoraði þrjú mörk fyrir þýska liðið.
„Vonandi verður ekki þörf á aðgerð en sú ákvörðun verður tekin í næstu viku. Ég er að minnsta kosti komin í spelku.
Brotið liggur ekkert alltof vel en vonandi grær þetta rétt saman og að aðgerð verði óþörf,“ sagði hún í samtali við Handbolta.is.