Selfoss vann góðan sigur á Stjörnunni, 27:22, þegar liðin mættust í þrettándu umferð úrvalsdeildar kvenna í handknattleik á Selfossi í kvöld.
Selfoss er áfram í fjórða sæti deildarinnar, nú með 13 stig en Stjarnan er í fimmta sætinu með 10 stig.
Jafnræði var með liðunum fyrstu tíu mínúturnar en í stöðunni 3:3 kom skelfilegur kafli hjá Stjörnunni sem misstu boltann trekk í trekk og Selfoss refsaði með mörkum úr hraðaupphlaupum. Staðan var fljótlega orðin 9:4 og Selfoss var á góðri siglingu fram að leikhléi en staðan var 15:10 í hálfleik.
Það var allt annað að sjá til Stjörnukvenna í seinni hálfleiknum og þær náðu að minnka muninn í tvö mörk, 22:20 þegar átta mínútur voru eftir. Stjörnuvörnin var mun betri og með því kom markvarslan en þær tóku Kötlu Maríu Magnúsdóttur úr umferð og það riðlaði leik heimakvenna sem skorti áræðni á þessum kafla.
Eftir þennan góða sprett Stjörnunnar voru það aftur töpuðu boltarnir sem reyndust þeim dýrir og Perla Ruth Albertsdóttir og Arna Kristín Einarsdóttir misstigu sig ekki í hraðaupphlaupunum. Selfoss skoraði þrjú síðustu mörkin í leiknum og vann að lokum öruggan sigur.
Perla Ruth var markahæst Selfyssinga með 8 mörk og þær Katla María og Harpa Valey Gylfadóttir skoruðu 5. Það munar miklu fyrir Selfyssinga að fá Hörpu aftur inn eftir meiðsli. Ágústa Tanja Jóhannsdóttir átti góðan leik í markinu og varði 14 skot.
Hjá Stjörnunni skoraði Eva Björk Davíðsdóttir 7 og Embla Steindórsdóttir 7/2. Þær eru burðarásar í sókninni hjá Stjörnunni, sem hefði þurft að sýna meiri fjölbreytni. Línuspilið var ekkert og þær fengu fá mörk úr hornunum. Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir var sterk í markinu í seinni hálfleiknum og varði 9 skot.
Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is sem má sjá hér fyrir neðan.