Fram vann sannfærandi sigur gegn ÍBV, 25:17, í 13. umferð úrvalsdeildar kvenna í handbolta í Vestmannaeyjum í dag.
Úrslitin þýða að Fram fer upp í annað sætið með 20 stig en ÍBV er í sjöunda sæti með sex stig.
Fram skoraði fyrstu fimm mörk leiksins og var fjórum mörkum yfir í hálfleik, 14:10.
Fram jók forskotið í síðari hálfleik og vann að lokum átta marka sigur, 25:17.
Þórey Rósa Stefánsdóttir var markahæst í leiknum en hún skoraði sjö mörk fyrir Fram. Birna Berg Haraldsdóttir og Birna María Unnarsdóttir skoruðu þrjú mörk hvor fyrir ÍBV.