Ætlum okkur að vera í toppbaráttu

Einar Jónsson ræðir við sína menn í kvöld.
Einar Jónsson ræðir við sína menn í kvöld. mbl.is/Eyþór

Einar Jónsson þjálfari Fram var að vonum ánægður með dramatískan eins marks sigur á Haukum í 15. umferð Íslandsmóts karla í handbolta í kvöld.

Með sigrinum má segja að Fram sé formlega búið að blanda sér í toppbaráttu deildarinnar. Við spurðum Einar hvað hafi skapað sigur Fram í kvöld.

„Við byrjum báða hálfleikana illa og þeir ná forskoti í byrjun beggja hálfleika. Okkur tókst samt í bæði skiptin að jafna og komast yfir. Auðvitað getur maður allta sagt að við hefðum átt að byrja leikinn betur og þá hefði þetta kannski orðið meira sannfærandi. Haukarnir eru bara góðir og ég er hrikalega ánægður með að við höfum unnið og mikill karakter í mínu liði.“

Hvaða jákvæðu punkta tekur þú með þér úr þessum leik?

„Vörnin var góð allan leikinn. Markverðirnir hefðu mátt vera betri. Sóknarlega vorum við fínir og við róterum mikið þar sem Rúnar og Gauti hafa verið veikir og ekkert æft. Marel er frábær í seinni hálfleik og Reynir auðvitað frábær allan leikinn. Við erum þannig lið að við treystum öllum og það geta allir lagt eitthvað til. Síðan mikill karakter hvernig við spilum þegar á móti blæs eins og t.d. Þegar við erum manni undir í fjórar mínútur og síðan brennum við af fjórum vítum en brotnum ekki.“

Fram er með þessum sigri formlega að stimpla sig inn í toppbaráttuna ekki satt?

„Jú ég er alveg óhræddur við að staðfesta það. Við ætluðum okkur að vera í toppbaráttu og hver sigur telur í því. Það er samt alltaf sama klisjan að það er bara næsti leikur en ég hræðist ekkert að tala um það að við ætlum okkur að vera í toppbaráttu,“ sagði Einar í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert