Hergeir Grímsson leikmaður Hauka var að vonum svekktur með eins marks tap gegn Fram á heimavelli í kvöld.
Haukar höfðu yfirhöndina meiri part leiksins, misstu niður forskotið í lokin og mistókst að jafna leikinn þegar um hálf mínúta lifði leiks. Við spurðum Hergeir hvað hafi á endanum skorið úr um úrslit leiksins.
„Tvö hörku lið í fyrsta leik eftir pásu. Við duttum niður sóknarlega og vorum of staðir í seinni hálfleik. Við vorum lika klaufar alltof oft í sókninni og fáum á okkur klaufaleg mörk í lokin sem gerir það að verkum að þetta fellur með þeim.“
Er þetta ekki svekkjandi í ljósi þess að Haukar ná upp þriggja marka forskoti bæði í fyrri hálfleik og svo aftur í þeim seinni en missa forskotin niður?
„Jú það er klúður. Akkúrat þegar við áttum góða kafla þá eigum við jafn lélega kafla síðan beint á eftir og vorum alltof mikið jójó í seinni hálfleik en við tökum ekkert af Fram þeir voru góðir og þetta féll með þeim.“
Haukar eru með yfirtölu í fjórar mínútur samfleytt þegar Magnús Öder fær rautt spjald. Niðurstaðan er að Haukar skora bara eitt mark á þessu tímabili. Er það ekki mjög dýrt í svona leik?
„Jú það er rándýrt, alveg rétt hjá þér. Að fara þannig með svona yfirtölu og við klúðruðum tveimur dauðafærum á þessum tímapunkti.“
Næsti leikur er gegn HK föstudag. Verður svarað fyrir þetta tap á móti þeim?
„Já klárlega. Við erum í stífu prógrammi í febrúar og ætlum að svara fyrir þetta tap á móti þeim,“ sagði Hergeir í samtali við mbl.is.