Valur hafði betur gegn KA, 32:29, þegar liðin mættust í 15. umferð úrvalsdeildar karla í handknattleik á Akureyri í kvöld.
Valur fór með sigrinum upp í þriðja sæti þar sem liðið er með 20 stig líkt og Afturelding sæti ofar. KA er enn í áttunda sæti með tíu stig.
Valur náði fljótt stjórninni í leiknum og komst í 6:2. Staðan að loknum fyrri hálfleik var 20:14.
Í síðari hálfleik héldu Valsmenn dampi, KA saxaði aðeins á forskotið undir lokin en niðurstaðan að lokum þriggja marka sigur Vals.
Úlfar Páll Monsi Þórðarson, Bjarni í Selvindi og Allan Norðberg voru markahæstir hjá Val með sjö mörk hver. Björgvin Páll Gústavsson varði tíu skot í markinu.
Nicolai Horntvedt Kristensen fór á kostum í marki KA er hann varði 18 skot og var með 41 prósent markvörslu.
Dagur Árni Heimisson og Einar Rafn Eiðsson voru markahæstir hjá KA með sex mörk hvor.