Hafdís Renötudóttir, landsliðsmarkvörður í handknattleik, hefur skrifað undir nýjan samning við Val sem gildir til sumarsins 2028.
Hafdís hefur varið mark Vals frá því hún gekk til liðs við félagið sumarið 2023 og myndar landsliðsmarkvarðapar Íslands ásamt Elínu Jónu Þorsteinsdóttur.
Hún er 27 ára gömul og hefur áður leikið með uppeldisfélagi sínu Fram og Stjörnunni hér á landi ásamt Lugi í Svíþjóð, Sola í Noregi og Sönderjyske í Danmörku.
„Ég er mjög ánægður að Hafdís hafi framlengt samninginn sinn við Val enda verið lykilleikmaður hjá liðinu undanfarin ár og frábær karakter.
Hún passar vel inn í framtíðarplön félagsins og mun án efa halda áfram að vera leiðtogi inn á vellinum og miðla sinni reynslu til yngri leikmanna félagsins,“ sagði Anton Rúnarsson nýráðinn þjálfari Vals sem tekur við eftir tímabilið.