Dagur Gautason fór vel af stað með franska stórliðinu Montpellier í kvöld þegar hann lék sinn fyrsta leik fyrir félagið.
Montpellier sigraði þá Aix, 33:31, í átta liða úrslitum frönsku bikarkeppninnar og Dagur skoraði fjögur mörk úr sex skotum.
Montpellier fékk Dag frá Arendal í Noregi fyrir nokkrum dögum og samdi við hann út þetta tímabil, í kjölfar þess að sænski landsliðsmaðurinn Lukas Pellas sleit hásin í fæti og verður frá keppni fram undir næstu jól.
Montpellier er þar með komið í undanúrslit ásamt París SG, Chambéry og Limoges. París SG hafði betur í vítakeppni gegn Nantes í kvöld eftir að liðin skildu jöfn í framlengdum leik.