Kolstad vann góðan sigur gegn Fjellhammer, 29:22, í norsku úrvalsdeildinni í handknattleik í dag.
Landsliðsmaðurinn Sigvaldi Björn Guðjónsson var markahæstur í liði Kolstad með fimm mörk. Sveinn Jóhannsson skoraði þrjú mörk fyrir Kolstad en Arnór Snær Óskarsson og Benedikt Gunnar Óskarsson komust ekki á blað.
Sigurinn þýðir að Kolstad fer á topp norsku úrvalsdeildarinnar með 34 stig. Elverum er í öðru sæti, einu stigi á eftir Kolstad með leik til góða.