Forráðamenn Handknattleikssambands Íslands, HSÍ, gátu ekki ráðið Dag Sigurðsson til starfa sem þjálfara íslenska karlalandsliðsins á sínum tíma þar sem að hann var of dýr fyrir sambandið.
Þetta herma heimildir mbl.is og Morgunblaðsins.
Dagur fundaði með forráðamönnum HSÍ í apríl árið 2023 vegna landsliðsþjálfarastarfsins en hann átti þá tvö ár eftir af samningi sínum við japanska handknattleikssambandið.
HSÍ hefði þurft að reiða fram tugi milljóna til þess að borga upp samning Dags í Japan en hann átti tvö ár eftir af samningi sínum á þessum tímapunkti.
Þeir peningar voru einfaldlega ekki til hjá Handknattleikssambandinu og því fóru viðræður forráðamanna HSÍ við Dag aldrei lengra að því er heimildir mbl.is og Morgunblaðsins herma en margir hafa gagnrýnt ákvörðun sambandsins, að ráða Dag ekki til starfa, undanfarna daga.
Dagur stýrði Japan til silfurverðlauna á Asíuleikunum árið 2024 í Barein áður en hann var ráðinn landsliðsþjálfari Króata í febrúar árið 2024.
Króatar náðu frábærum árangri undir stjórn Dags á nýliðnu heimsmeistaramóti í Króatíu, Danmörku og Noregi þar sem liðið hafnaði í 2. sæti eftir tap gegn Danmörku í úrslitaleik í Bærum.