Haukar lentu ekki í vandræðum með nýliða Selfoss er liðin áttust við í 15. umferð úrvalsdeildar kvenna í handknattleik á Ásvöllum í kvöld. Lokatölur urðu 29:20.
Haukar eru áfram í öðru sæti en nú með 24 stig, sex stigum minna en topplið Vals. Selfoss er í fjórða sæti með 13 stig.
Haukar náðu strax stjórninni og komust í 7:1 eftir rúmlega tólf mínútna leik. Allt frá því voru gestirnir að elta.
Staðan var 15:10 í hálfleik og Haukar hófu síðari hálfleikinn á því að komast átta mörkum yfir, 19:11. Eftirleikurinn reyndist auðveldur og niðurstaðan að lokum níu marka sigur.
Elín Klara Þorkelsdóttir og Inga Dís Jóhannsdóttir voru markahæstar í leiknum með sjö mörk hvor fyrir Hauka.
Sara Sif Helgadóttir átti stórleik í marki Hauka er hún varði 14 skot og var með 44 prósent markvörslu.
Hjá Selfossi var Perla Ruth Albertsdóttir markahæst með fimm mörk. Ágústa Tanja Jóhannsdóttir varði 14 skot í markinu.