Valur vann nokkuð þægilegan heimasigur á ÍR, 22:19, í 15. umferð úrvalsdeildar kvenna í handknattleik á Hlíðarenda í kvöld og styrkti þar með stöðu sína á toppnum.
Valur er með 30 stig eftir 16 leiki, átta stigum meira en Haukar sem eru í öðru sæti en eiga tvo leiki til góða. ÍR er í sjötta sæti með níu stig.
Valur leiddi með fimm mörkum, 13:8, í hálfleik og náði sjö marka forystu, 22:15, þegar tæpar sjö mínútur lifðu leiks.
Valskonur slökuðu þá aðeins á og ÍR skoraði fjögur mörk í röð en komst hins vegar ekki nær og niðurstaðan þriggja marka sigur.
Þórey Anna Ásgeirsdóttir var markahæst í leiknum með sjö mörk fyrir Val. Hafdís Renötudóttir átti magnaðan leik í markinu er hún varði 17 skot og var með 47 prósent markvörslu.
Katrín Tinna Jensdóttir var markahæst hjá ÍR með fimm mörk. Ingunn María Brynjarsdóttir lék afar vel í markinu er hún varði 14 skot og var með 39 prósent markvörslu.