Valsmenn tóku á móti Íslands- og deildarmeisturum FH í 16. umferð Íslandsmóts karla í handbolta í kvöld og endaði leikurinn með sjö marka sigri Vals, 33:26.
Eftir leikinn er lið FH áfram á toppnum með 23 stig líkt og Fram sem er með jafn mörg stig. Valsmenn eru með 22 stig líkt og Afturelding í 3.-4. sætinu.
Valsmenn skoruðu tvö fyrstu mörk leiksinn og komust í 2:0. Þá kom 5 marka kafli hjá liði FH sem komst þremur mörkum yfir í stöðunni 5:2. Valsmenn komu til baka og jöfnuðu leikinn í stöðunni 7:7 og náðu síðan undirtökunum í fyrri hálfleik eftir það og komust yfir 9:8.
Valur náði mest þriggja marka forskoti í hálfleiknum líkt og FH hafði gert í upphafi í stöðunni 14:11. FH náði að laga stöðuna áður en hálfleiknum lauk og fóru Valsmenn með tveggja marka forskot inn í hálfleikinn.
Fámenni var í Valsheimilinu í kvöld og lítil stemmning sem virtist smitast inn á völlinn. Skynjaði undirritaður ákveðna deyfð yfir leiknum í fyrri hálfleik.
Staðan í hálflleik 16:14 fyrir Val.
Agnar Smári Jónsson og Andri Finnsson skoruðu þrjú mörk hvor í fyrri hálfleik fyrir Val og varði Björgvin Páll Gústavsson 6 skot, þar af eitt víti.
Jóhannes Berg Andrason skoraði 4 mörk fyrir FH í fyrri hálfleik og varði Daníel Freyr Andrésson 5 skot.
Valsmenn byrjuðu seinni hálfleikinn á að komast þremur mörkum yfir og staðan 17:14. Í kjölfarið varði Björgvin Páll dauða færi úr horninu frá Birgi Má Birgissyni og notfærðu Valsmenn næstu sókn í að komast fjórum mörkum yfir í stöðunni 18:14.
Valsmenn héldu áfram að byggja upp forskot sitt í seinni hálfleik og þegar staðan var orðin 21:16 fyrir Val tók Sigursteinn Arndal þjálfari FH leikhlé. FH minnkaði muninn strax í kjölfarið en því svaraði Þorvaldur Örn Þorvaldsson með marki og munurinn áfram 5 mörk í stöðunni 22:17.
Valsmenn náðu 7 marka forskoti í stöðunni 24:17 og aftur í 26:19. Lið FH reyndi hvað það gat að minnka muninn og komast aftur inn í leikinn. Hið öfuga gerðist, Valsmenn héldu áfram að auka forskotið og komust 8 mörkum yfir í stöðunni 29:21 og 9 mörkum yfir í stöðunni 31:22.
Leikmenn FH náðu að klóra örlítið í bakkann og minnka muninn í lok leiksins. Fóru leikar því þannig að Valsmenn unnu 7 marka sigur, 33:26.
Úlfar Páll Monsi Þórðarson skoraði 8 mörk fyrir Val, þar af 3 úr vítum. og varði Björgvin Páll Gústavsson 11 skot, þar af eitt vítaskot.
Ásbjörn Friðriksson skoraði 6 mörk fyrir FH, öll úr vítum. Daníel Freyr Andrésson varði 12 skot fyrir FH.