Einar Þorsteinn Ólafsson, landsliðsmaður í handknattleik, hefur samið við þýska félagið Hamburg um að leika með því næstu tvö tímabil. Gengur hann til liðs við félagið í sumar.
Einar Þorsteinn, sem er 23 ára gamall varnarmaður og vinstri skytta, kemur frá danska félaginu Fredericia þar sem hann er að ljúka sínu þriðja tímabili í vor. Þangað kom hann frá Val.
Hamburg leikur í efstu deild Þýskalands þar sem liðið er í 11. sæti af 18 liðum en félagið varð Þýskalandsmeistari í fyrsta og eina skiptið til þessa árið 2011. Þá vann það Meistaradeild Evrópu árið 2013, Evrópukeppni bikarhafa árið 2007 og þýsku bikarkeppnina árin 2006 og 2010.
Segir í tilkynningu félagsins að Einar Þorsteinn sé sérfræðingur í varnarleik en hann hefur verið í vaxandi hlutverki í vörn íslenska landsliðsins og hefur spilað með því á tveimur síðustu stórmótum. Einar lék sinn 21. landsleik gegn Grikklandi á laugardaginn.
Faðir hans, Ólafur Stefánsson, lék lengi vel í Þýskalandi en Einar Þorsteinn er fæddur í Magdeburg þar í landi árið 2001, sama ár og Magdeburg vann sinn fyrsta meistaratitil í sögunni með Alfreð Gíslason sem þjálfara og þá Ólaf og Sigfús Sigurðsson sem leikmenn.