Í fyrramálið kemur í ljós hvort Valskonur leika fyrri eða seinni úrslitaleikinn í Evrópubikarnum í handbolta á heimavelli sínum á Hlíðarenda.
Valskonur slógu út Michalovce frá Slóvakíu með miklum glæsibrag í gær með stórsigri í seinni leiknum á Hlíðarenda, 30:20, eftir að hafa tapað 25:23 í Slóvakíu viku áður.
Mótherjar í úrslitunum eru spænska félagið Porrino sem vann Hazena Kynzvart frá Tékklandi 30:27 á útivelli á laugardaginn, eftir að hafa unnið heimaleikinn með sama markamun, 31:28.
Dregið verður í höfuðstöðvum EHF í Vínarborg í fyrramálið um hvort liðið verður á heimavelli í hvorri viðureign.
Þar er mikið í húfi því að vonum er mun meiri stemning sem fylgir því að eiga möguleika á að tryggja sér Evróputitil á heimavelli en á útivelli.
Fyrri leikur liðanna fer fram 10. eða 11. maí og sá síðari viku seinna, 17. eða 18. maí.