Heimsmeistaramóti íslenska hestsins, sem átti að fara fram í Herning í Danmörku í ágúst, hefur verið aflýst.
Alþjóðasamtök íslenska hestisns, FEIF, gáfu í morgun út tilkynningu þess efnis að búið væri að taka þessa ákvörðun.
Ástæðan er óvissa í tengslum við kórónuveirufaraldurinn og þær miklu líkur sem eru taldar á því að ekki gætu allir meðlimir FEIF tekið þátt í mótinu.
„Í anda sannrar merkingar sanngjarnrar keppni er ekki hægt að halda mótið með heimsins bestu íslensku hestunum og knöpum,“ segir meðal annars í tilkynningu FEIF og ítrekað er að ákvörðunin hafi reynst samtökunum þungbær.
Næsta heimsmeistaramót íslenska hestsins verður haldið í Hollandi árið 2023.