Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari karlaliðs Selfoss í handbolta, var virkilega ánægður með sína menn eftir 25:24 sigur á KA í Olísdeildinni á Selfossi í dag.
„Fyrst og fremst er ég gríðarlega ánægður með að vinna þennan leik, með einu marki og fá þessi tvö stig. Það var mikilvægt fyrir okkur að skilja KA frá okkur á töflunni. KA hefur fengið erfiða gagnrýni á sig, eins og við, og þess vegna var ótrúlega mikilvægt að klára þennan leik. Þessi sigurtilfinning er svo mikilvæg, það er svo mikilvægt að maður hafi andlegan styrk og trúi því að maður geti klárað þessa leiki á síðustu mínútunum,“ sagði Halldór Jóhann.
Það var svo sannarlega raunin því þegar spennan var mest höndluðu Selfyssingar leikinn betur eftir miklar sveiflur framan af leik.
„Ég er óánægður með þessa sveiflu sem verður í seinni hálfleik, við hægjum á spilinu og missum aðeins árásargirnina. Þá förum við að hnoðast á miðjunni og missum kjarkinn að skjóta á þá því þeir voru aftarlega. Það vantaði aðeins klókindi. Við vorum að spila frábæra vörn annan leikinn í röð og það erum við virkilega ánægðir með. Þeir reyndu sjö á sex, sem við hefðum getað leyst betur. Óðinn [Þór Ríkharðsson] fékk mikið af færum í þeirri stöðu og við hefðum getað lokað á það eins og við höfðum talað um,“ bætti Halldór Jóhann við.
Selfyssingar hafa verið í brasi framan af móti og glímt við mikil meiðsli í leikmannahópnum, sem reyndar sér ekki alveg strax fyrir endann á. Halldór er yfirvegaður þegar talið berst að stöðu liðsins.
„Við þurfum að vera auðmjúkir gagnvart stöðunni sem við erum í og stöðunni í deildinni, með öll meiðslin og allt það. Hlutirnir gerast ekki með því að smella fingri eða klappa saman lófunum. Við þurfum að vinna okkar vinnu gríðarlega vel og ég er búinn að vera ótrúlega ánægður með strákana á þessari viku síðan í ÍBV leiknum. Við fórum aðeins yfir okkar mál og menn svöruðu því vel. Það er ekki nóg að spila tvo leiki og ná tveimur sigrum, við þurfum að bæta í og halda áfram að bæta okkur sem lið og ná fram meiri stöðugleika.“