Landsmót hestamanna yrði ekki að veruleika nema fyrir vinnu hers óeigingjarnra sjálfboðaliða sem hafa árum saman gefið vinnu og tíma til þess að tryggja að íslenskir hestamenn geti annað hvert ár notið landsmótsins.
„Þetta eru rosalega mikilvæg störf því ef við værum ekki með fólk í þessum störfum þá gætum við ekki haldið þetta mót,“ segir Erna Ómarsdóttir, leiðtogi sjálfboðaliða mótsins.
Sjálfboðaliðar vinna á að minnsta kosti fjögurra til sex tíma vöktum meðan á mótinu stendur og eru störfin fjölbreytt, til að mynda miðasala, umferðarstjórnun, vöktun á svæðinu, veitingasala og aðstoð við dómara.
„Þeir eru svolítið í öllu, það er svona aðalatriðið. Þetta eru kannski ekki störf sem allir taka eftir því sjálfboðaliðaranir eru ekki dómarar eða ritarar eða eitthvað slíkt.“
Erna segir skráningu sjálfboðaliða nokkuð góða í ár og hafa hátt í 60 manns boðið fram krafta sína eins og stendur en það mega alltaf vera fleiri til taks.
„Þetta er mjög mikil blanda af Íslendingum og erlendu fólki sem kom hingað til þess að kíkja á landsmót og líka er þetta fólk sem býr á Íslandi og er að vinna í tengslum við hesta. Við fáum til okkar fólk sem kemur hingað sérstaklega til að fara á mótið sem og fólk sem er á landinu.“
Er fólk að utan þá spennt fyrir sjálfboðavinnu á landsmótinu?
„Já, það virðist vera mikill áhugi fyrir því og við erum þannig með mjög gott bland, bæði af Íslendingum og útlendingum.“
Sem verðlaun fyrir óeigingjarna vinnu fá sjálfboðaliðar ókeypis aðgang á landsmótið alla vikuna sem og önnur fríðindi.
„Sjálfboðaliðarnir eru ekki að vinna alla vikuna, þeir vinna bara ákveðnar vaktir. Þeir fá fæði á meðan þeir eru að vinna og ákveðinn varning sem er merktur landsmóti sem og aðgang að sérstöku tjaldsvæði sem er bara fyrir starfsmenn. Svo er það þannig að ef þeir vilja fá meðmæli fyrir sína vinnu þá er það eitthvað sem við getum útvegað.“
Mikil vinna fer í að halda mót af þessari stærðargráðu og ef ekki væri fyrir vinnu sjálfboðaliða er ekki auðséð að það væri hægt.
„Þetta er náttúrlega heljarmikill peningur þannig að ef við værum ekki með sjálfboðaliða þá værum við ekki að halda mót í þessari mynd yfirhöfuð af því að þetta stæði hreinlega ekki undir sér. Það er því alls ekki sjálfsagt að halda landsmótið í þessari mynd, þetta er svo rosalega stór viðburður,“ segir Erna.
Hún segir undirbúning fyrir landsmótið ganga vel og kveðst spennt fyrir sumrinu.
„Þetta gengur bara nokkuð vel, hjólin snúast og þetta er að mjakast saman. Púslið að raða sjálfboðaliðunum niður á vaktir er einmitt að byrja núna. Það eru náttúrlega ákveðnir aðilar sem komast bara á ákveðnum dögum, bara seinni part eða bara fyrri part. Það þarf því að púsla þessu öllu saman svo að batteríið gangi. Þetta er náttúrlega bara eitt stórt púsluspil,“ segir Erna að lokum og hlær.