Allar niðurstöður og upplýsingar á sama stað

„Í smáforritinu er hægt að sjá hvað er verið að …
„Í smáforritinu er hægt að sjá hvað er verið að þjálfa mikið, hvernig umönnun hefur verið háttað og önnur atriði til að tryggja velferð hestsins,“ segir Oddur Ólafsson. Ljósmynd/Aðsend

Smáforritið HorseDay hefur verið í miklum vexti í íslensku hestasamfélagi síðustu tvö ár og stendur uppbyggingin enn.

Á síðasta ári tók HorseDay yfir keppnisforrit Landssambands hestamanna, LH Kappa, og sér nú alfarið um niðurstöður hestamóta hérlendis, þar með talið á komandi landsmóti.

„Við sjáum að þetta er þekkt virkni, fólk var að fylgjast með keppni í gegnum LH Kappa áður en við ­tók­um það yfir. Ég held að fólk sé að átta sig á því hvað við erum að gera og bjóða upp á fyrir ­hestageirann. Það hefur gengið vel og viðtökurnar hafa verið frábærar. Við erum bara stolt og þakklát fyrir það,“ segir Oddur Ólafsson, einn stofnenda og framkvæmdastjóri HorseDay.

Strava fyrir hestamenn

Í grunninn er HorseDay upplýsingagjöf fyrir knapa til að geta fylgst með þjálfun, umönnun og velferð hestsins síns og forritið þjónar svipuðum tilgangi og smáforritið Strava.

„Þegar þjálfunargögnin eru sett fram á sjónrænan hátt getur notandinn farið að greina þau og nýta til að ná markmiðum sínum eða hreinlega að auka meðvitund um þjálfunina. Hvers konar þjálfun hefur áhrif og hvað var ég að gera í aðdraganda mótsins þar sem ég fór í þessa tiltekna tölu til að sjá hvað gekk best og hvað er hægt að bæta. Það er í rauninni það sem við erum að hugsa, hvernig getum við hjálpað fólki að skilja sína þjálfun betur. Og eins það að hugsa vel um hestinn sinn. Þú sérð hvað þú ert að þjálfa mikið, hvernig umönnuninni hefur verið háttað og eins til að tryggja velferð hestsins.“

Allar niðurstöður úr gæðingakeppni, íþróttakeppni og kynbótadómum verða aðgengilegar í …
Allar niðurstöður úr gæðingakeppni, íþróttakeppni og kynbótadómum verða aðgengilegar í gegnum HorseDay. Ljósmynd/Aðsend

Allar niðurstöður á sama stað

Fyrirkomulag á HorseDay vegna landsmóts verður ögn öðruvísi en venjulega til að auðvelda aðgengi fyrir notendur.

„Þetta er í fyrsta skipti sem við erum með gæðingakeppni, íþróttakeppni og kynbótadóma í gegnum sama forritið. Við tökum það verkefni að okkur og erum mjög spennt að halda áfram að vinna að þessu með ­forsvarsmönnum landsmótsins og sýna gestum í fyrsta skipti hvernig ný upplýsingamiðlun verður á landsmóti í ­Reykjavík árið 2024.“

Framsetning kynbótadóma í ­smáforritinu verður með sama sniði og í gæðinga- og íþróttakeppninni. Þar verður kynbótadómum raðað eftir aldursflokki og röðunin eftir sæti tiltekins hests í hverjum flokki. Þar verður hægt að sjá lifandi niðurstöður kynbótadóma og nálgast niðurbrotið fyrir hverja gangtegund sem og sjá hvernig byggingardómurinn skiptist niður.

„Einnig erum við með upplýsingaveitu í smáforritinu, hvort sem það verða fréttir eða tilkynningar. Þar verða tilkynningar sendar beint til notenda á mótsstað tengt því sem er í gangi hverju sinni. Þetta verður sérhönnun fyrir mótið sjálft sem við vinnum í samstarfi við landsmót,“ segir Oddur.

Grunnvirknin ókeypis

Grunnvirknin er ókeypis fyrir notendur og þar er hægt að fylgjast frítt með lifandi niðurstöðum. Með því að kaupa áskrift verður svo hægt að fá ítarlegri upplýsingar.

„Við erum með áskriftarleið sem þarf að greiða fyrir og hún er raun sérsniðin að landsmóti. Hún veitir fólki meðal annars dýpri innsýn í keppnisárangur tiltekinna hesta, lifandi tilkynningar frá þeim flokkum sem fólk vill fylgjast sérstaklega með og nýjar upplýsingar um störf dómara. Þar erum við helst að skoða hlutfall útstrikana, frávik hvers dómara frá raunniðurstöðum og sætaröðun. Þessir hlutir eru ætlaðir til að færa fólki nýjar pælingar og hreinlega nýja upplifun af mótinu.“

Von á frábæru sumri

Að sögn Odds hefur undirbúningur hjá HorseDay fyrir mótið gengið vel fyrir sig.

„Það er í mörg horn að líta en við höfum átt farsælt samstarf við Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins sem sér um WorldFeng og er að vinna að SportFeng sem er grunnkerfið sem heldur utan um keppnishlutann. Einnig höfum við átt gott samstarf við Landsmót hestamanna og þetta vinnst allt í samvinnu, það er lykillinn að þessu.“

Er komin spenna fyrir landsmótið?

„Já, við erum mjög spennt. Þetta verður frábært sumar, það er mikill spenningur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert