Meistaradeildin heldur áfram í dag

Glódís Rún Sigurðardóttir á Breka frá Austurási.
Glódís Rún Sigurðardóttir á Breka frá Austurási. Ljósmynd/Carolin Giese

Meistaradeildin í hestaíþróttum heldur áfram næsta fimmtudag þegar keppni í slaktaumatölti fer fram. Ráslistinn er klár og stefnir í hörku keppni í höllinni á Ingólfshvoli.

Glódís Rún Sigurðardóttir vann þessa grein í fyrra en hún mætir með annan hest í ár, Ottesen frá Ljósafossi. Þetta er ekki frumraun þeirra í slaktaumatölti en þau kepptu nokkrum sinnum í fyrra með ágætis árangri.

Það eru mörg sterk pör á ráslistanum en fyrst er hægt að nefna Íslandsmeistarana í greininni, Jakob Svavar Sigurðsson og Hrefnu frá Fákshólum, en þau munu keppa fyrir lið Hjarðartúns.

Ásmundur Ernir Snorrason og Hlökk frá Strandarhöfði hafa verið afar farsæl í þessari grein og þykja líkleg í efstu sætin. Gústaf Ásgeir Hinriksson mætir með Draum frá Feti en Draumur og þáverandi knapi hans, Ólafur Andri Guðmundsson, voru í A-úrslitum í þessari grein á Íslandsmótinu í fyrra.

Aðalheiður efst í einstaklingskeppninni

Þá bíða eflaust margir spenntir eftir því að sjá Íslandsmeistarann og tvöfalda Landsmótssigurvegarann í skeiði, Kastor frá Garðshorni, í frumraun sinni í slaktaumatölti með knapa sínum Konráði Val Sveinssyni.

Eyrún Ýr Pálsdóttir og Drangur frá Steinnesi vöktu verðskuldaða athygli í fjórgangnum síðast þar sem þau enduðu í þriðja sæti. Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir mætir með Flóvent frá Breiðstöðum en þau unnu fjórganginn og Aðalheiður er efst í einstaklingskeppninni sem stendur. Þau eru þaulreynt par í þessari grein, unnu hana árið 2023 og voru í A-úrslitum í fyrra.

Eins og áður hefst keppni stundvíslega kl. 19 í höllinni á Ingólfshvoli en húsið opnar kl. 17. Aðgangur er ókeypis í boði Hringdu.

Fyrir þá sem komast ekki í höllina verður keppnin sýnd í beinni útsendingu á Eiðfaxa TV þar sem hægt verður að fylgjast með keppninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert