Þó Luis Suárez sé kominn til Úrúgvæ frá HM í Brasilíu eftir að hafa fengið 9 leikja landsleikjabann og fjögurra mánaða allsherjar bann frá fótbolta, er sjúkraþjálfari Suárez eftir með landsliði Úrúgvæ í Brasilíu.
Walter Ferreira sjúkraþjálfari Suárez lagði ansi margt í sölurnar fyrir framherjann og til þess að Úrúgvæ gæti farnast sem best á HM í Brasilíu. Ferreira glímir við krabbamein og átti að hefja meðferð við krabbameininu rétt áður en HM hófst. Þar sem Luis Suárez var meiddur á hné rétt áður en heimsmeistarakeppnin hófst og tvísýnt um þátttöku hans í Brasilíu ákvað Ferreira að fresta krabbameinsmeðferðinni til að ná skjólstæðingi sínum góðum.
Ferreira tókst vel til, því Suárez var kominn á ferðina með Úrúgvæ í 2. umferð riðlakeppni HM þar sem hann skoraði tvö mörk í sigri á Englandi. Þegar Suárez skoraði fyrra mark sitt í leiknum hljóp hann einmitt að hliðarlínunni til Ferreira og fagnaði markinu með honum. Eftir þann leik þakkaði Suárez svo sjúkraþjálfara sínum frábært samstarf.
En nú hefur Suárez verið rekinn heim frá Brasilíu, en eftir situr sjúkraþjálfarinn hans sem frestaði krabbameinsmeðferð sinni fyrir Suárez.