Tábarez segir skilið við FIFA

Óscar Tábarez, þjálfari Úrúgvæ.
Óscar Tábarez, þjálfari Úrúgvæ. AFP

Óscar Tábarez, þjálfari úrúgvæska landsliðsins í knattspyrnu, kveðst ætla að hætta að vinna fyrir FIFA, Alþjóða knattspyrnusambandið, í kjölfarið á úrskurði þess í máli Luis Suárez.

Tábarez kom fram á fréttamannafundi í gærkvöld vegna leiks Úrúgvæ og Kólumbíu í sextán liða úrslitum heimsmeistarakeppninnar sem fram fer í kvöld og hélt þar tólf mínútna ræðu. Þar tilkynnti hann úrsögn sína úr tveimur nefndum FIFA sem hann hefur átt sæti í undanfarin ár.

„Það er ekki skynsamlegt að taka þátt í starfsemi stofnunar sem lét undan þrýstingi með því að komast að þessari niðurstöðu. Við vitum öll að Suárez gerði mistök en það eru fleiri hliðar á málinu. Þessi úrskurður er alltof þungur. Menn gleyma því að blóraböggullinn í málinu er maður sem á að njóta einhvers réttar og sannmælis," sagði Tábarez.

Hann beindi orðum sínum að enskum fjölmiðlum og sagði þá hafa ráðið ferðinni. „Ég veit ekki um þjóðerni allra þeirra sem beittu sér mest í þessu máli en þeir töluðu allir ensku," sagði Tábarez.

Hann brýndi um leið sína menn til dáða í leiknum gegn Kólumbíu og hvatti þá til að berjast sem einn maður gegn óréttlætinu sem þjóð þeirra og samherji hefðu verið beittir af Alþjóða knattspyrnusambandinu.

Tábarez neitaði að svara spurningum á fundinum en þegar hann gekk úr salnum risu allir úrúgvæskir fréttamenn á staðnum úr sætum sínum og hylltu hann með dynjandi lófataki.

Tábarez er 67 ára gamall og hefur stjórnað landsliði Úrúgvæ undanfarin átta ár. Undir hans stjórn varð liðið Suður-Ameríkumeistari árið 2011 og komst í undanúrslit heimsmeistarakeppninnar í Suður-Afríku ári áður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert